Döðlugott

Döðlugott hef ég rekist á í nokkrum útgáfum. Uppskriftina sem ég styðst við fékk ég á sínum tíma hjá Sonju starfssystur minni í HA en hef breytt henni aðeins, þ.e. minnkað bæði smjör og sykurmagn en aukið döðlumagnið. Í sjálfu sér er döðlugott ekki endilega jólanammi og sómir sér vel í veislum allt árið.  Þetta er mjög fljótlegt og einfalt og meira að segja þeir sem ekki segjast hrifnir af döðlum gúffa gottið í sig. Ég nota ferskar döðlur, finnst þær einfaldlega betri. Ég hef prófað að setja piparfylltar lakkrísreimar (150-250 g) saman við „deigið“ og það var býsna gott. Reimarnar eru þá skornar í litla búta og settar út í áður en rice crispies fer saman við. En hér er hefðbundna útgáfan.

Innihald:
270 g smjör (var 350 g)
90 g hrásykur (var 150 g)
400 g ferskar steinlausar döðlur (var 350 g)
250 g (ca. 2 lítrar) rice crispies
400-500 gr dökkt súkkulaði (t.d. Síríus suðusúkkulaði)

Smjör og sykur sett saman í stóran pott og látið bráðna/malla. Ég nota stóran pott svo ég geti blandað öllu saman í honum og sparað uppvaskið.

Næst er að steinhreinsa döðlur og hakka/saxa þær gróft. Ég vigta döðlurnar eftir að ég er búin að steinhreinsa.

IMG_0233

Hökkuðum döðlum er svo bætt út í pottinn og „bræddar“ saman við.

IMG_0236

Gott er að hræra í öðru hverju og passa að þetta brenni ekki.  Slökkt undir potti og látið kólna aðeins. Þetta verður að karamellulíkum massa.

IMG_0237

Rice crispies er síðan sett útí og allt hrært vel saman.

IMG_0239

Ofnskúffa klædd með bökunarpappír og hellt úr pottinum í skúffuna. Dreift úr massanum og þjappað mjög vel. Kælt í ísskáp í u.þ.b. klukkutíma.

IMG_0240

Súkkulaðið brætt yfir vatnsbaði og hellt ofan á. Dreift sem jafnast, hér þarf að hafa hraðar hendur áður en súkkulaðið byrjar að harðna.

IMG_0241

Látið kólna og síðan skorið í hæfilega bita, stærðin er smekksatriði en mér finnst ágætt að hafa þá ekki mjög stóra. Ágætt að geyma bitana í kökubauk og setja bökunarpappír á milli laga. Geymist best á köldum stað.

IMG_0249

 

 

Færðu inn athugasemd