Lagkökur eða randalínur eru bakaðar á mörgum heimilum fyrir jól. Kannski er réttara að segja að þær hafi verið bakaðar á mörgum heimilum hér áður fyrr, líklega er þessi siður á undanhaldi. Mamma bakaði lagköku sem kölluð var randalína og var lögð saman með marglitu smjörkremi. Tengdamamma heitin, Hulda í Sunnuhlíð, bakaði alltaf lagköku eða lagtertu sem kölluð var brún randalín og var lögð saman með rabarbarasultu og smjörkremi. Eftir að tengdamamma féll frá fengum við uppskriftina hjá Ingibjörgu mágkonu og fórum að reyna að baka þessa köku sjálf. Einhverra hluta vegna er alveg sérstakt jólabragð af þessari köku.
Uppskriftin er á þessa leið:
660 g hveiti
230 g sykur
250 g síróp
200 g smjör
2 egg
1 tsk kanill
1 tsk negull
2 tsk natron
Í upphaflegu uppskriftinni er smjörlíki en það hvarflar ekki að mér að nota það í matargerð þegar ég get fengið smjör.
Byrjað er á að yla saman smjör, sýróp og sykur í potti. Notið lágan hita, þetta þarf ekki að sjóða en sykurinn á að leysast upp. Þegar þetta er orðið að jöfnun karamellulituðum massa er potturinn tekinn af hitanum og karamellan látin kólna að stofuhita.
Þurrefnum er blandað saman í skál. Eggin sett í aðra skál og þeytt aðeins með gaffli. Þegar karamellan er orðin passlega köld er hún sett út í þurrefnin ásamt eggjunum. Ef karamellan er of heit hlaupa eggin og það eyðileggur deigið. Deigið er hnoðað saman, gjarnan í hrærivél.
Þetta deig passar á 2 plötur. Ef gerð er tvöföld uppskrift verður þetta þykk, flott og stór kaka.
Deiginu er skipt í tvennt (eða fernt ef bökuð er tvöföld uppskrift) og hver hluti flattur út á bökunarpappír sem passar á ofnplötu. Bakað við 180°C í u.þ.b. 12 mínútur.
Kökurnar eru látnar kólna áður en þær eru settar saman með smjörkremi og rabarbarasultu.
Smjörkrem fyrir hálfa tertu (þ.e. tvo botna):
250 g smjör (við stofuhita)
500 g flórsykur
1 eggjarauða (og smá hvíta)
½ dl rjómi
1 tsk vanilludropar
Smjörið hrært aðeins fyrst. Síðan er flórsykri, eggjarauðu, rjóma og vanillu bætt í og þeytt vel og vandlega.
Að þessu sinni bakaði ég stóra tertu, það er að segja fjóra botna, úr tvöfaldri uppskrift. Þegar kakan er lögð saman þarf að passa að láta botnana snúa þannig að þegar kakan er tilbúin snúi baksturshliðin út bæði efst og neðst. Vona að þið skiljið hvað ég á við. En sem sagt, ég set sultuna á annan botninn og smjörkremið á hinn og legg svo saman þannig að smjörkremið lendi ofan á sultunni. Þegar bökuð er einföld uppskrift, með tveimur botnum, er kakan skorin í tvennt og leikurinn endurtekinn. Þá er komin hálf terta. Þegar bökuð er tvöföld uppskrift, með fjórum botnum, er bara haldið áfram og smurt á botna þar til kakan lítur svona út:
Kökunni er pakkað í plast og látin standa til næsta dags. Þá hafa sultan og kremið náð að mýkja kökuna aðeins og hægt að skera af henni kantana svo hún líti nú þokkalega út.
Síðan er tertunni skipt í hæfilega hluta, eftir smekk, hverjum og einum pakkað inn og fryst. Ég pakka þeim í álpappír (vegna þess að mamma gerði það alltaf) en kannski mætti nota smjörpappír. Afskurðurinn er að sjálfsögðu borðaður líka. Ég set hann í dall og inn í ísskáp og hann hverfur yfirleitt á nokkrum dögum.
