Kalkúnabollur í tómat- og basilíkusósu

Eitt og annað dettur í innkaupakörfuna hjá okkur hjónum, sérstaklega þegar við förum saman í matarinnkaup. Stundum er um að ræða eitthvað sem er á sérlega góðu verði og stundum eitthvað sem okkur langar að prófa. Kalkúnahakk tikkaði í bæði boxin á sínum tíma. Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar með rétti úr þessu hráefni en engin slegið beinlínis í gegn. Við tiltekt í frystinum fann ég einn skammt af hakkinu og ákvað að gera eina atlögu enn að því að finna góðan rétt úr þessu hakki. Útkoman var bara nokkuð góð og þessi uppskrift verður örugglega notuð aftur.

IMG_0156Byrjum á sósunni en í hana fer:

  • 1 msk olía
  • 2 hvítlauksrif
  • 1/4 – 1/2 tsk chiliflögur (hér þarf að miða við bragðlauka hvers og eins, 1/2 tsk gefur nokkuð sterka sósu)
  • 2 msk tómatkraftur/-púrra
  • 2 dósir niðursoðnir tómatar, saxaðir
  • 1/2-1 tsk salt
  • slatti af ferskri basilíku (ca. hálft búnt af keyptri)

Olían er hituð aðeins á pönnu og pressuðum hvítlauksrifjum og chiliflögum bætt út í. Látið malla í svona mínútu, passa bara að hafa hitann ekki það háan að kryddið brenni. Tómatkrafti er bætt út í og hrært vel saman við krydd og olíu. Tómötum er svo hellt útá og loks salti og basilíku. Allt hrært vel saman áður en lok er sett á pönnuna og sósan látin malla við vægan hita meðan bollurnar eru útbúnar.

IMG_0158Hráefni í bollurnar:

  • 1 dl brauðmylsna
  • 1 dl mjólk
  • 1 egg
  • 1,5 dl rifinn parmesanostur (má líka nota grana padano eða pecorino)
  • 1 tsk oreganó, þurrkað
  • 1 tsk sjávarsalt
  • 1 dl söxuð steinselja
  • 600 g kalkúnahakk

Brauðmylsnu og mjólk er blandað saman  í skál og látið bíða smá stund meðan mylsnan drekkur í sig mjólkina. Því næst er eggi, osti, og kryddi bætt út í og blandað VEL saman. Nú er komið að hakkinu sem bætt er útí og blandað saman við, gjarnan með hreinum höndum, þar til allt er orðið að samfelldu deigi.

IMG_0159Bollurnar eru svo formaðar, annað hvort með rökum höndum eða með ísskeið (þá er auðveldara að fá jafnstórar bollur). Þetta urðu 22 bollur og er skammtur fyrir fjóra.

IMG_0161Bollurnar eru settar varlega ofan í sósuna á pönnunni. Þær munu væntanlega standa aðeins upp úr sósunni en það gerir ekkert til því þeim er snúið eftir rúmlega helming suðutímans.

IMG_0162Lokið er sett á pönnuna og látið malla áfram við hægan hita í u.þ.b. 15 mínútur. Þá er bollunum snúið, lokið sett á aftur og látið sjóða áfram, enn við vægan hita, í 10 mínútur til viðbótar. Nú ættu bollurnar að vera tilbúnar. Ég skreytti með smávegis af saxaðri basilíku.

IMG_0167Með þessu er auðvitað hægt að bera fram pasta og/eða salat eða hvaðeina sem fólki dettur í hug. Hjá mér varð fyrir valinu kúrbíts„pasta“, einfalda útgáfan. Kúrbítur er skorinn eftir endilöngu með ostaskera svo úr verða þunnar langar sneiðar.

IMG_0164Sneiðarnar eru settar í skál með svolitlum grænmetiskrafti (1/2 teningur eða 1 tsk af dufti) og sjóðandi vatni hellt yfir.

IMG_0166Þetta er látið standa í svona 5 mínútur áður en vatninu er hellt af og kúrbíts„pastað“ er borið fram. Verður ekki mikið einfaldara og fljótlegra og svo er þetta bráðhollt.

IMG_0169 (2)

2 athugasemdir á “Kalkúnabollur í tómat- og basilíkusósu

Færðu inn athugasemd