Rifsberjahlaup

Já hér kemur enn ein sultuuppskriftin. Mér til afsökunar þá er nú einu sinni berjatími og full ástæða til að nýta þetta dýrindi allt saman. Þar sem lítil uppskera er á rifsrunnum í garðinum hér í Birkilundi í ár (eins og í fyrra, líklega þarf að skoða hvort eitthvað er að þessum eymingjum) þá leitaði ég á náðir annarra í fjölskyldunni. Björg móðursystir (sem ég kalla nú reyndar alltaf Lillu frænku) býr í húsinu þar sem þær mamma og Bogga móðursystir ólust upp. Þar eru rifsberjarunnar út við götuna og þar sem þetta er hornlóð er um ófáa runna að ræða. Runnarnir voru gróðursettir fyrir rúmum 80 árum og gefa af sér ókjör af berjum á hverju ári. Lilla tók mér afar vel þegar ég bað um að fá að tína rifs hjá henni, sagði að nóg væri enn á runnunum. Til að gera langa sögu stutta þá er óhætt að segja að hún hafi ekki verið að ýkja neitt. Ég hef aldrei séð svona mikið af berjum á rifsrunnum og það sem meira er, þau voru eiginlega öll fagurrauð og fögur.

20170903_155148

Eftir að hafa tínt nægju mína fór ég heim með fenginn og ákvað að frysta smávegis af berjum á stilkum til að nota til skreytinga seinna. Það er sáraeinfalt, ég skola greinarnar og læt svo þorna, dreifi þeim á bakka með eldhúspappír undir og plastfilmu yfir og skelli í frysti. Þegar þau eru frosin tek ég greinarnar og sett í dall og geymi í frysti þar til þau verða notuð.

Jæja, megnið af berjunum fór í rifsberjahlaup og hér kemur uppskriftin.

Rifsber á stilkum skoluð vel og vandlega. Gott að hafa svolítið af grænum eða bleikum berjum með, þá hleypur þetta betur. Annars voru berin núna nær alveg rauð og það kom ekki að sök. Í stilkum og lítt þroskuðum berjum er sem sagt náttúrulegur hleypir sem gerir hlaupið akkúrat passlega stíft.

Berin eru sett í pott og smávegis af köldu vatni sett með. Ágætt er að miða við að þegar hönd er þrýst ofan á berin þá glitti í vatn.  Soðið undir loki í 7-10 mínútur. Ef berin eru ekki komin alveg í mauk er fínt að þjarma aðeins að þeim með kartöflustappara. Öllu gumsinu er svo hellt í grisju eða fínt sigti og safinn látinn síga af.  Þetta getur tekið nokkra klukkutíma og ef þannig stendur á er allt í lagi að láta þetta standa yfir nótt. Mjöööög mikilvægt er að kreista ekki grisjuna til að flýta fyrir ferlinu, þá verður hlaupið ekki eins tært og fallegt.

IMG_0102

Þegar sultandinn (nýyrði) hefur staðist þetta þolinmæðispróf er safinn mældur og settur í pott og látinn sjóða í opnum potti í 7-10 mínútur, þá rýkur úr honum mest af vatninu sem bætt var saman við berin í upphafi. Nú er komið að því að bæta í sykri, u.þ.b. 700 g pr lítra af safa, og soðið í opnum potti í 7-10 mínútur.

IMG_0104

Ofan á tærum vökvanum hefur líklega birst bleikt gums sem best er að veiða af með gataspaða.

Vökvanum er loks ausið á hreinar og heitar krukkur og lokað strax. Hlaupið þarf að fá smá tíma til að stífna. En fallegt er það í krukkunum.

IMG_0116

3 athugasemdir á “Rifsberjahlaup

Skildu eftir svar við Kristín Sóley Sigursveinsdóttir Hætta við svar