
Í gegnum tíðina hef ég prófað margar pönnukökuuppskriftir en þessi hefur reynst langbest. Hún byggir á uppskrift úr bókinni Maturinn okkar eftir Nönnu Rögnvaldardóttur. Eina breytingin sem ég hef gert er að skipta út hluta af mjólkinni fyrir kaffi. Mér finnst bragðið verða betra og liturinn fallegri. Þannig að ef þið viljið ekki hafa kaffi þá er bara að skipta því út fyrir mjólk.
Innihald:
3 egg
4 dl mjólk
1 dl vel sterkt kaffi (eða kúfuð tsk instant kaffi í 1 dl af sjóðandi vatni)
1 tsk vanilludropar
125 g hveiti
2 msk sykur
½ tsk lyftiduft
örlítið salt
50 g smjör
Aðferð:
- Egg brotin í skál og pískuð saman. Mjólk og kaffi blandað saman og bætt í eggin ásamt vanilludropum.
- Hveiti, sykri lyftidufti og salti blandað saman og bætt í skálina og hrært þar til deigsoppan er slétt og kekkjalaus. Ef enn eru kekkir í deiginu (það gerist iðulega hjá mér) þá er bara að sigta allt saman í skál.
- Smjörið er brætt á pönnukökupönnunni og látið kólna aðeins áður en því er bætt í deigið.
- Mér finnst best að hafa pönnuna töluvert heita og hér gildir að prófa sig áfram. Nú, þegar pannan er orðin heit er slatta af deigi hellt á pönnuna. Nanna mælir með 2-3 msk, ég nota ausu sem ég á sem tekur kannski rúmar 3 msk. Pönnunni er velt fram og aftur þar til deigið þekur pönnuna. Hversu þunn kakan verður fer bæði eftir þykkt deigsins og hita pönnunnar. Mér finnst ekkert sáluhjálparatriði að kakan sé næfurþunn. Það tekur um mínútu að steikja kökuna á fyrri hliðinni, þá ætti hún að vera orðin gullinbrún. Pönnukökuspaða (eða öðrum löngum mjóum spaða) er rennt meðfram pönnubarminu til að losa kökuna og snúa henni við. Seinni hliðin tekur svona 15 sekúndur. Loks er kökunni hvolft á disk.
- Svo er bara að halda áfram þar til deigið er búið. Uppskriftin dugar í ca. 15-18 pönnukökur.
