Frækex

IMG_1289Hér kemur uppskrift að kexi eða hrökkbrauði sem hentar þeim sem vilja sneiða hjá kornvörum og sykri. Eftir að hafa prófað nokkrar útgáfur af svona bakstri er ég loksins búin að finna aðferð sem skilar mér bragðgóðu kexi sem helst í sæmilega formuðum kökum. Ekki spillir fyrir að kexið er meinhollt og stútfullt af raunverulegum næringarefnum.

Innihald:
50 g sólblómafræ
50 g sesamfræ
50 g graskersfræ
50 g hörfræ
50 g chiafræ
1 tsk sjávarsalt
1 tsk mulinn svartur pipar
1 tsk laukduft (má sleppa eða nota annað krydd eftir smekk)
250 ml vatn

Aðferð:

  • Ofn stilltur á 180°C á blæstri.
  • Þurrefnin, þ.e. fræ og krydd, eru sett í skál og blandað vel saman.
  • Þá er um það bil þriðjungur þurrefnanna settur í matvinnsluvél og malaður í nokkuð fíngert mjöl. Þetta skref, þ.e. að mala hluta fræjanna gerir það að verkum að kexið tollir betur saman.
  • Mjölið er svo sett aftur í skálina með ómöluðu fræjunum og blandað vel saman.
  • Uppfærsla/viðbót 25.08.19: Undanfarið hef ég malað öll fræin í matvinnsluvél og það hefur reynst mjög vel. Mæli með því 🙂
  • Vatninu er nú bætt í skálina og blandað vel og látið standa í 10 mínútur.  Fræin sjúga í sig vökvann og eftir þessar 10 mínútur ætti deigið að vera tilbúið til að fara á bökunarplötu.
  • Deiginu er dreift jafnt á bökunarplötu sem klædd hefur verið með bökunarpappír. Þetta skref í ferlinu er það eina sem krefst smá nosturs. Ég nota bakhliðina á sílikonsleif til að fá deigplötuna jafna að þykkt og með sæmilega slétta jaðra.
  • Næst er deigplatan skorin með pizzuskera eða hníf til að skipta henni upp í bita. Auðvitað er smekksatriði hversu stórar kexkökurnar verða en í þetta skipti urðu þær 32.
  • Platan er svo sett í ofninn og kexið bakað í 35-40 mínútur.
  • Þegar platan er tekin úr ofninum renni ég pizzuskeranum aftur í skurðina sem ég gerði í deigið og þá er kexið tilbúið.
  • Kexið er látið kólna áður en það er sett í lokað box.

Færðu inn athugasemd