Eitt af því sem ég hef saknað frá Danmerkurárunum er að geta keypt ekta danskt rúgbrauð. Bakaríið við brúna hér á Akureyri hefur undanfarin ár selt sólkjarnarúgbrauð sem er bæði gróft og gott en samt ekki alveg það sem ég var að leita að. Ekta danskt rúgbrauð er yfirleitt bakað úr súrdeigi en ég hef ekki komist upp á lag með það. Á danskri matarbloggsíðu fann ég uppskrift sem ég hef aðlagað að eigin smekk og þeim hráefnum sem ég get nálgast. Þetta er kaldhefað brauð – bakað í einu 3,3 l brauðformi. Byggt á: https://rigeligtsmor.dk/opskrift-nemt-hverdagsrugbrod/
Í brauðið fer:
2 dl súrmjólk
6 dl kalt vatn
1,5 dl dökkur bjór (hef notað Einstök Toasted Porter eða Garúnu)
2 tsk þurrger
15 g salt
500 g Fimm korna blanda
115 g graskersfræ
100 g sólblómafræ
75 g hörfræ
250 g heilhveiti, (fuldkornshvedemel fæst í Nettó)
300 g rúgmjöl
Fræ til að setja ofan á, ef vill
Aðferð:
- Súrmjólk, vatni og bjór blandað saman í skál.
- Þurrefnum blandað saman og bætt í vökvann. Hrært í hrærivél í 10 mínútur. Ég nota hrærarann, s.s. ekki hnoðarann.
- Deigið sett í form sem smurt hefur verið með smá olíu.
- Formið hulið með vaxdúk (í neyð má nota plastfilmu) og sett í ísskápinn í minnst 12 tíma, gjarnan lengur þar sem brauðið verður bragðmeira eftir því sem það fær að „taka sig“ lengur. Helst ekki lengur en 6 sólarhringa því þá getur brauðið orðið of súrt.
- Brauðið tekið úr ísskápnum, penslað með vatni og fræjum stráð yfir ef vill. Mér finnst það óþarfi því brauðið er pakkað af fræjum.
- Bakað við 180°C í 90 mínútur.
- Brauðinu er svo hvolft á bökunargrind og vafið inn í blautt viskastykki og látið kólna alveg áður en það er skorið. Ég sker allt brauðið í sneiðar og frysti í hæfilegum skömmtum.
