Kjúklingur með tómötum og þistilhjörtum

Undanfarið hefur þessi kjúklingaréttur verið næstum pínlega oft í matinn hjá okkur. Ástæðan er auðvitað einfaldlega sú að okkur þykir hann verulega bragðgóður og svo spillir ekki fyrir að hann er auðlagaður. Eins og margir ofnréttir er hann líka þægilegur þegar von er á gestum. Rétturinn er í ofninum meðan tekið er á móti gestunum og spjallað fyrir matinn.  Innihaldið getur svo farið aðeins eftir því hvað er til í ísskápnum, allavega upp að ákveðnu marki. Um að gera að nýta það sem er til. Þessi skammtur er líklega hæfilegur fyrir 2-3 eftir því hversu svangir þeir eru.

IMG_1022Í réttinn fór að þessu sinni:

5 kjúklingalæri á beini
sjávarsalt og nýrifinn svartur pipar
4 hvítlauksrif, söxuð gróft
2 msk olía (úr krukkunni með sólþurrkuðu tómötunum)
100 g sólþurrkaðir tómatar skornir í ræmur
150 g maríneruð þistilhjörtu
3 dl kjúklingasoð
1 tsk þurrkuð basilíka
1 tsk þurrkað timían
1 tsk þurrkað óreganó
1 askja kokteiltómatar
nokkrir sveppir sem voru til í ísskápnum
50 g parmesan, rifinn
1/2 búnt af ferskri basilíku

Kjúklingur er þerraður, kryddaður með salti og pipar og brúnaður í olíunni á pönnu, um 5 mínútur á hvorri hlið. Svo er kjúllinn tekinn af og geymdur þar til síðar. Ef mikill vökvi er á pönnunni er ráðlegt að hella megninu af.

Næst er hvítlaukurinn settur á pönnuna og látinn hitna vel, passa þarf samt að hann brenni ekki. Þá er komið að sólþurrkuðu tómötunum, þistilhjörtum, soði og þurrkaða kryddinu. Öllu þessu er skellt út í til hvítlauksins og látið malla saman í svona 5  mínútur.

Nú er komið að því að bæta kjúklingnum aftur á pönnuna og bæta við fersku tómötunum og sveppunum. Í stað sveppa mætti líka nota papriku eða annað grænmeti sem ykkur þykir gott. Upplagt að nýta það sem er til og myndi annars skemmast og lenda í tunnunni.

IMG_1019Ég geri þennan rétt í pönnu sem má fara í ofn. Auðvitað er líka hægt að setja réttinn í ofnfast fat ef pannan þolir ekki að fara í ofninn. Rétturinn fer sem sagt í ofninn og er bakaður við 180-200°C í 30 mínútur. Þá er parmesanostinum dreift yfir kjúklinginn og rétturinn settur aftur í ofninn í svona 10 mínútur. Í lokin setti ég saxaða ferska basilíku yfir af því ég átti hana til, hef líka sleppt henni og það var í góðu lagi en ég mæli samt með því að prófa að gera réttinn með henni ef þið eruð hrifin af basilíku.

Með réttinum mæli ég með blómkálsmús (uppskrift hér)

Verði ykkur að góðu!

Færðu inn athugasemd