Hnetubitar

Sætindi þurfa ekki að vera troðfull af hvítum sykri. Hér er uppskrift að ljúffengum nammibitum sem eru ótrúlega fljótgerðir. Reyndar þarf að sýna smá biðlund því súkkulaðibráðin sem sett er ofan á bitana þarf að ná að kólna áður en hægt er að gæða sér á þeim. En biðin er alveg þess virði. Bitana er hægt að geyma í kæli eða frysti.

Uppskrift svipaða þessari má finna í ýmsum útgáfum á netinu. Um daginn prófaði ég að gera mína útgáfu og hún er svona:

Botn:
250 g steinlausar döðlur
150 g salthnetur
5 msk hnetusmjör

Ofaná:
100 g 70% súkkulaði
1 msk kókosolía

IMG_0994Nota má þurrkaðar döðlur eða ferskar. Þegar notaðar eru þurrkaðar döðlur eru þær látnar mýkjast í soðnu vatni í svona 15 mínútur. Vatninu er svo hellt frá.

Döðlurnar eru settar í blandara/matvinnsluvél og maukaðar. Hnetum og hnetusmjöri er skellt útí hjá döðlunum og maukað saman en þó ekki meira en svo að ennþá séu eftir hnetubitar. Mér finnst allavega betra að hafa þetta svona. Þetta á að verða að þykku frekar þurru mauki. Þá er komið að því að setja maukið í form. Ég notaði ferkantað glerfat sem er ca. 21 x 21 cm og klæddi það innan með plastfilmu. Maukinu er jafnað í formið og þjappað aðeins. Geymt í kæli meðan súkkulaðibráðin er útbúin.

Súkkulaði og kókosolía sett í skál yfir vatnsbaði. Hitað rólega og hrært í öðru hverju. Þegar súkkulaði og kókosolía hafa bráðnað saman er blöndunni hellt yfir döðlu- og hnetubotninn. Fatið er svo sett í kæli aftur svo súkkulaðið nái að stífna. Áður en súkkulaðið verður alveg hart er fínt að taka „kökuna“ úr fatinu og skera í hæfilega bita. Nú kemur sér vel að hafa plastfilmuna til að lyfta botninum yfir á skurðarbretti.  Brettið með bitunum fær svo að fara aftur í ísskápinn og súkkulaðið látið kólna vel. Þá er hægt að setja bitana í bauk og geyma í kæli eða frysti – nú eða gæða sér á þeim ef þannig stendur á.

2 athugasemdir á “Hnetubitar

  1. Klikkað gott og nærri ávanabindandi.
    En held nauðsynlegt að eiga matvinsluvel það sem ég bræddi nærri úr töfrasprotanum mínum.
    En mæli klárlega með þessu 🤩

    Líkar við

Færðu inn athugasemd