Rúsínubollur mömmu

Líklega hef ég verið svona 10 ára þegar mamma fór á gerbakstursnámskeið og bakaði svo eins og vindurinn allskonar gómsæti, bæði sætt og ósætt. Mig minnir að hún hafi fengið uppskriftina að rúsínubollunum úr norsku blaði.  Ég baka þessar bollur ekkert sérlega oft, helst þegar ég vil gleðja krakkana mína eða aðra úr fjölskyldunni sem koma í heimsókn og kunna vel að meta bollurnar. Uppskriftin er stór, um 64 bollur, og ekkert mál að minnka hana bara um helming ef það hentar betur.  Yfirleitt hef ég bakað uppskriftina eins og hún er og fryst það sem ekki borðast strax.

150 g smjör
5 dl mjólk
5 dl vatn
2 pakkar þurrger
1 tsk salt
3 dl sykur
3 tsk kardimommuduft
3 dl rúsínur (jafnvel meira)
1 l heilhveiti
1,5 l hveiti + meira ef þarf til að hnoða

Smjörið er brætt við vægan hita og vökva bætt í. Þessi blanda á að vera volg, ca. 37°C, þegar öðru hráefni er bætt í.
Ger, salt, sykur, rúsínur og kardimommur sett útí vökvann.
Megnið af hveitinu (hæfilegt að setja lítra af heilhveiti og lítra af hveiti til að byrja með, bæta svo í eftir þörfum þegar hnoðað er upp) sett útí smám saman. Hnoðað vel saman. Uppskriftin er svo stór að venjulegar heimilishrærivélar duga ekki til.  Ég blanda deigið í stórri skál.  Þegar deigið er orðið sæmilega samhangandi skelli ég því á borð og hnoða, set það svo aftur í skálina og læt það hefast í henni. Ef uppskriftin er helminguð er hægt að hnoða í hrærivél.
Látið tvíhefast við góðan yl. Um að gera að gefa þessu tíma, láta deigið hefast í 30-40 mínútur, slá það þá aðeins niður og láta hefast aftur.

Hnoðað upp, mótaðar bollur sem settar eru á pappírsklæddar plötur. Auðvitað er smekksatriði hvað bollurnar eru hafðar stórar en í þetta skipti voru um 50 g af deigi í hverri bollu og bökunartími miðast við þá stærð.

Næst er hreint viskastykki sett yfir bollurnar og þær látnar hefast vel í a.m.k. hálftíma. Síðan er penslað yfir bollurnar með eggi og mjólk, þ.e. 1 egg og u.þ.b. 2 msk mjólk sem er þeytt smávegis til að það blandist vel saman.

IMG_0837Bakað í miðjum ofni við 200°C í 10-15 mínútur, eða þar til bollurnar eru fallega gullinbrúnar að ofan.

IMG_0838

Færðu inn athugasemd