Köttbullar heita þær á sænsku og eiga lítið skylt við íslenskar kjötfarsbollur. Jú kannski eitthvað skyldar en þær sænsku eru töluvert vandaðri matur, svo það sé nú sagt eins og það er. Minn heittelskaði kann verulega vel að meta kjötbollur, sérstaklega í þessari útgáfu með kartöflumús, sósu og sultu.
Hér er uppskriftin:
500 g blandað hakk (nauta- og kindahakk)
1 dl brauðrasp
2 dl vatn
1 egg
1 1/2 tsk salt
1 tsk hvítur pipar
1/2 tsk nýmalaður svartur pipar
1 meðalstór laukur, saxaður
smjör til steikingar
Brauðrasp sett í skál og vatninu bætt í ásamt léttpískuðu eggi. Látið bíða í svona 10 mínútur. Ég geri farsið í matvinnsluvél, saxa fyrst laukinn og set svo hakkið, raspblönduna og kryddið saman við og blanda. Matvinnsluvél er ekki nauðsynleg, það er ekkert mál að gera þetta með skál, sleif og handafli.
Svo eru mótaðar frekar smáar bollur og steiktar í smjöri á pönnu. Fínt að nota ísskeið til að móta bollurnar.
Þegar kjötbollurnar eru vel steiktar eru þær færðar upp á disk eða í skál og haldið heitum (t.d. í volgum ofni) meðan sósan er útbúin.
Um 5 dl af vatni er hellt á pönnuna til að losa um steikningargumsið eftir kjötbollurnar. Í þetta er svo bætt svolitlum kjötkrafti, svona einum teningi eða samsvarandi af dufti. Þetta er látið malla saman örfáar mínútur. Í potti er brætt um 3 msk. af smjöri og útí það settar 3 msk. af hveiti og blandað vel. Soðinu blandað í smám saman og látið sjóða saman. Kryddað með salti og pipar. Ef áhugi er fyrir mýkri og rjómakenndari sósu má setja rjóma eða rjómaost saman við. Ég notaði rjómaost í þetta skipti og sennilega flýtti ég mér aðeins of mikið því osturinn náði ekki alveg að bráðna saman við sósuna. Það skýrir hvítu doppurnar í sósunni. Mmmmm smakar jättebra!


Þetta lítur dásamlega út, skil vel að bóndinn brosi út að eyrum 🙂
Líkar viðLíkað af 1 einstaklingur