Uppskrift að Klörubrauði er búin að vera þó nokkur ár í uppskriftamöppunni minni og hefur verið notuð töluvert. Ég gat ekki með nokkru móti munað hvaðan hún er fengin eða hver þessi Klara er. Hvað gerir kona þá? Nú, hún gúgglar það að sjálfsögðu! Google segir mér að uppskriftin sé úr bók eftir Yesmine Olsson og ættuð frá tengdamóður hennar sem heitir Klara. Þá vitum við það. Ég set tvöfalt meira af fræjum en upprunalega uppskriftin gerir ráð fyrir. Brauðið er sérlega fljótgert, og mér finnst það mjög gott. Hér er mín útgáfa.
400 g heilhveiti
400 g hveiti eða spelt
2 dl sólblómafræ
1 dl sesamfræ
1 dl hörfræ
4 tsk. lyftiduft
1 tsk. natron
1 tsk. salt
5 dl súrmjólk eða ab-mjólk
4 ½ dl vatn
Þurrefni sett í skál og blandað saman með sleif. Vökvanum síðan blandað saman við og allt hrært saman.
Sett í 2 form. Fínt að setja sólblómafræ ofan á brauðin og þrýsta þeim aðeins niður svo þau tolli betur.

Bakað við 180°C í 1 klst.
Þessa uppskrift má útfæra með ýmsu móti, t.d. setja í 2 msk af kúmeni, eða saxaða sólþurrkaða tómata og ólífur, eða krydd og jafnvel rifinn ost.
