Á sunnudaginn fengum við góða gesti og þá skellti ég í þessa tertu sem ég hef gert nokkrum sinnum áður með góðum árangri. Uppskriftin hefur verið að þróast aðeins í meðförum mínum, upphaflega fékk ég hana úr einhverju blaði. Tertan er alls ekki þung og klesst eins og t.d. franskar súkkulaðitertur eru stundum. Ofan á hana er settur rjómi sem ég blanda með jarðarbarasultunni minni og gusa svo slatta af skornum jarðarberjum efst. Algjör dásemd. Verð að taka fram að þessi elska varð ekkert sérstakt augnayndi í þetta skipti, þ.e. botninn, en bragðið klikkar ekki.
150 g smjör
4 eggjahvítur
50 g sykur
4 eggjarauður
100 g púðursykur, ljós eða dökkur
150 g 70% súkkulaði (ég nota súkkulaði frá Green & Black)
100 g pecanhnetur (má líka nota valhnetur og/eða möndlur)
25 g hveiti
1/2 tsk vanilluduft eða korn úr 1 vanillustöng
1/4 l rjómi
1 dl sulta úr jarðarberjum og rabarbara eða önnur góð sulta
250 g jarðarber
Ofn er hitaður í 155°C.
Næst er ágætt að bræða smjörið og láta mesta hitann rjúka úr því.
Eggjahvítur þeyttar með 50 g af sykri þar til þær eru orðnar vel stífar. Því næst eru rauðurnar þeyttar með púðursykrinum.
Súkkulaði er saxað gróft og sett í matvinnsluvél með hnetum, hveiti og vanillu. Blandað aðeins en bara ekki of lengi, gott er að hafa bita bæði af súkkulaði og hnetum í tertunni. Auðvitað má líka saxa hnetur og súkkulaði með hníf, ef vill.
Smjörið (sem nú ætti í mesta lagi að vera moðvolgt) er þeytt saman við eggjarauðublönduna. Næst er súkkulaði, hnetum, hveiti og vanillu (úr matvinnsluvélinni) hrært vel saman við. Að lokum er eggjahvítublöndunni blandað varlega en vandlega saman við. Sett í vel smurt springform, ca. 24 cm í þvermál. Ég mæli með að spenna bökunarpappír fastan í botninn, þá er auðveldara að losa kökuna úr forminu. Bakað í 35-40 mínútur.
Kakan er látin kólna vel áður en hún er losuð úr forminu og sett á fat. Þá er þeyttur rjómi með sultu settur ofan á. Ég blanda sem sé jarðarbarasultu saman við þeyttan rjóma. Efst eru svo sett jarðarber skorin í minni bita ef þau eru frekar stór, annars er fínt að hafa þau í heilu.
