Saltfiskur af suðrænum slóðum

Saltfiskur er hátíðarmatur sums staðar í sunnanverðri Evrópu og þá er ekki verið að tala um þessa hefðbundnu íslensku matreiðslu þar sem soðinn saltfiskur er borinn fram með kartöflum, rófum og hamsatólg. Við gerum stundum þennan rétt sem er mjög þægilegur að því leyti að hægt er að gera hann næstum alveg fyrirfram og skella svo í ofninn í svona hálftíma áður en á að borða hann.  Þessi uppskrift ætti að duga fyrir fjóra ef borið er fram salat með.

800 g saltfiskur, soðinn og roð- og beinhreinsaður
800 g kartöflur, soðnar og flysjaðar

Tómatsósa:
2 msk olía
2 laukar, saxaðir
2-4 söxuð hvítlauksrif (eftir smekk)
1 dós niðursoðnir tómatar, saxaðir
1 lítil dós tómatkraftur (um 3 msk)
2 tsk þurrkuð steinselja eða 2 msk fersk
1/2 tsk sjávarsalt
1/2 tsk nýmalaður pipar

Olían er hituð aðeins í potti eða pönnu. Lauk og hvítlauk er skverað í olíuna og látnir mýkjast í olíunni. Þá er tómötum, tómakrafti og kryddi bætt í og sósan látin malla við vægan hita, undir loki, að minnsta kosti hálftíma.

Ofaná:
Ólífur, grænar og/eða svartar
2-3 harðsoðin egg skorin í báta, ef vill

Þá er það samsetningin. Ofnfast fat er smurt örlítið með olíu og soðnar kartöflur, í bitum, settar í botninn.IMG_0689.JPGNæst er saltfiskinum bætt ofan á kartöflurnar. Fínt að taka stykkin aðeins sundur og dreifa úr honum. Ég nota bara hreinar hendur að skipta fiskstykkjunum. Í þetta skipti notaði ég sporðstykki, þau eru töluvert ódýrari en hnakkastykkin en duga ágætlega í þennan rétt.IMG_0690Þá er tómatsósunni bætt ofan á. Í lokin má svo bæta ólífum ofan á sósuna. Sumum finnst betra að setja ólífurnar ofan á réttinn þegar hann kemur úr ofninum, þetta er smekksatriði. Þeir sem vilja ekki ólífur sleppa þeim bara.IMG_0691Rétturinn er bakaður í ofni við 180-200°C þar til hann er heitur í gegn. Allt sem í hann fer er fulleldað svo þetta er bara spurning um að ná jöfnum og góðum hita á réttinn. Ef sósan er heit þegar hún fer ofan á volgan fisk og kartöflur þá tekur þetta svona 15-20 mínútur.

Ef vill má skera 2 eða 3 harðsoðin egg í báta og setja ofan á réttinn rétt áður en hann er borinn fram. Ekki sakar að strá saxaðri ferskri steinselju efst, ég átti hana bara ekki til í þetta skipti. Svo er upplagt að bera fram gott grænt salat með.

Færðu inn athugasemd