Hafir þú ekki nú þegar kynnst blómkálsmúsinni þá mæli ég eindregið með að þú prófir þessa uppskrift. Blómkálið er soðið með grænmetiskrafti og svo maukað með t.d. fetaosti eða krydduðum rjómaosti. Hægt er að leika sér með krydd/ost og fá þannig mismunandi afbrigði af músinni. Músin er góð með flestu og upplagt að nota hana í staðinn fyrir kartöflumús. Hér er lýsing á músinni sem ég gerði í þetta skipti.
1 meðalstór blómkálshaus
1 grænmetisteningur
2 msk fetaostur í kryddolíu
3 msk rjómi (má sleppa, eða nota smá smjör ef vill)
Nýmalaður svartur pipar og sjávarsalt eftir smekk.
Blómkálshausinn er hlutaður niður í minni bita. Bitarnir og grænmetisteningur settir í vatn og soðið þar til blómkálið er vel meyrt. Vatninu er svo hellt frá og fetaosti eða rjómaosti með kryddblöndu eða pipar og jafnvel smá rjómslettu eða smjöri bætt við. Allt maukað saman t.d. með töfrasprota en það má líka nota gamaldags kartöflustappara og fá smá æfingu fyrir vöðvana í leiðinni. Bragðbætt með sjávarsalti og nýmöluðum svörtum pipar. Ef til eru afgangar af fersku kryddi, t.d. dilli eða tímíani, er upplagt að nota þá líka.

1 athugasemd á “Blómkálsmús”