Hér kemur uppskrift að strengjabaunasalati sem borið er fram volgt og er fyrirtaks meðlæti með ýmsum mat, til dæmis lambakjöti eða kjúklingi. Ég nota yfirleitt frosnar strengjabaunir. Frosið grænmeti og ávextir er fryst strax eftir uppskeru og heldur því gæðum sínum oft á tíðum betur en það sem ferðast hefur ófrosið milli landa og er því miður ekki alltaf sérlega ferskt þegar það er komið í búðir hjá okkur.
300-400 g strengjabaunir
2 msk olía
250 g sveppir
1 rauðlaukur
2 hvítlauksrif
1 tsk þurrkað oregano
1 msk balsamic edik
salt og nýmalaður pipar
Strengjabaunir eru settar í léttsaltað sjóðandi vatn. Suðan látin koma upp aftur og soðið í 2-3 mínútur. Vatninu er hellt af og baunirnar látnar bíða,
Rauðlaukur og sveppir eru sneiddir þunnt, hvítlaukur saxaður smátt eða pressaður. Grænmetið látið mýkjast í bragðmildri olíu á pönnu. Þá er oregano, ediki, salti og pipar bætt við og látið krauma örlítið með grænmetinu.
Loks er baununum bætt á pönnuna og látnar hitna vel í gegn. Flóknara er það nú ekki.
Í þetta sinn var salatið meðlæti með pönnusteiktum lambalundum og blómkálsmús.

