Ris á l’amande

Þegar við bjuggum í Kaupmannahöfn ákváðum við að sleppa því að reyna að endurgera íslenskan jólamat úr dönsku hráefni en höfðum þess í stað hefðbundna danska rétti á borðum: önd í aðalrétt og ris á l’amande í eftirrétt. Öndin hefur stundum þurft að víkja fyrir öðrum aðalrétti en við höldum okkur við þessa spariútgáfu af hrísgrjónagraut í eftirrétt. Uppskriftin er fengin úr litlum bæklingi sem heitir Jul fra Brugsen. Uppskriftin er ætluð fyrir sex manns.IMG_02633/4 dl stutt grautargrjón
1/2 l mjólk
1 vanillustöng
50 g saxaðar möndlur
2 msk sykur

4 dl rjómi

Byrjað er á að sjóða grautinn. Vanillustöngin er klofin og sett í pott með mjólk og grjónum. Soðið við vægan hita undir loki í 50 mínútur. Hrært í af og til og passað að grauturinn brenni ekki við. Grauturinn á ekki að verða hnausþykkur.

IMG_0269Að suðu lokinni er grauturinn látinn kólna aðeins. Þá er vanillustöngin veidd uppúr og möndlum og sykri bætt í og blandað vel. Grauturinn er svo látinn kólna alveg. Það er alveg hægt að komast upp með að gera grautinn daginn áður en bera á fram eftirréttinn.

Daginn sem sparigrauturinn er borinn fram er rjóminn þeyttur og blandað vandlega saman við kaldan grautinn. Mér finnst gott að byrja á að setja helminginn af rjómanum fyrst og blanda vel og bæta síðan hinum helmingi rjómans við. Þetta er nú allur galdurinn.

Með grautnum berum við fram volga kirsuberjasósu (kaupum yfirleitt þessa frá Den gamle fabrik), hindberjasósu og/eða karamellusósu. Ég ætlaði að taka myndir af fíneríinu í spariskálunum á aðfangadag en gleymdi því auðvitað. Náði bara mynd af því þegar Keli fékk sér af restunum á jóladag.

IMG_0275

Færðu inn athugasemd