Kurltoppar hafa verið vinsæll jólabakstur undanfarin ár. Þetta eru marengstoppar með súkkulaði og súkkulaðihúðuðu lakkrískurli. Um að gera að leika sér aðeins með þessa uppskrift og prófa mismunandi afbrigði af súkkulaði og kurli. Karamellukurl er t.d. ágætt og þeir sem eru hrifnari af mjólkursúkkulaði nota það í stað suðusúkkulaðis. Lykilatriði við baksturinn er að þeyta eggjahvítur og púðursykur nógu lengi.
3 stórar eða 4 litlar eggjahvítur (120 g)
200 g ljós púðursykur
150 g lakkrískurl (súkkulaðihúðaður lakkrís)
100 g suðusúkkulaði, saxað
Eggjahvítur þeyttar aðeins, púðursykri bætt í smátt og smátt og þeytt kröftuglega saman þar til þeytan er orðin stíf og sykurinn sést ekki lengur. Þetta tekur um 10 mínútur. Súkkulaði og lakkrískurli blandað vel en varlega saman við með sleikju.
Sett í toppa á pappírs- eða sílíkonklædda plötu. Gott að nota tvær teskeiðar til verksins. Það er alveg óhætt að setja toppana nokkuð þétt á plötuna, þeir stækka ekki mikið í bakstrinum. Gerir um 75 toppa.
Bakað í miðjum ofni við 150°C í 20 mínútur. Látið kólna aðeins áður en topparnir eru teknir af plötunni.
