Laufabrauð af Dálksstaðaætt

Einn af jólasiðum fjölskyldunnar er laufabrauðsgerð. Við gerum deigið sjálf og notum uppskrift sem á uppruna sinn í fjölskyldu Kela. Þessi útgáfa er frá Hólmfríði mágkonu og í henni er heilhveiti sem okkur þykir til mikilla bóta, kökurnar verða mun bragðmeiri þegar notað er grófara mjöl með hvíta hveitinu. Úr þessari uppskrift fást 45-50 kökur. Deigið þarf að „hvíla“, þ.e. standa a.m.k. hálfan sólarhring.  Að því loknu er hægt að byrja baksturinn. Hingað til höfum við flatt út, skorið og steikt sama daginn en núna vorum við svo fáliðuð að við ákváðum að fletja út kökurnar og geyma til næsta dags. Til að gera langa sögu stutta þá var þetta mun betra fyrirkomulag og kökurnar voru meðfærilegri, auðveldara að skera þær og þær komu betur út í steikingu. En við byrjum á deiginu.

750 g hveiti
250 g heilhveiti
1/2 msk salt
½ l mjólk
4 msk sykur
1/8 l (1,25 dl) rjómi
1/2 tsk hjartarsalt leyst upp í örlitlu vatni
1 egg

Hveiti, heilhveiti og salti er blandað saman í skál. Sykur og mjólk sett í pott og hitað að suðu. Potturinn er svo tekinn af hitanum, rjóminn settur útí og látið kólna aðeins. Blandan kólnar svolítið þegar rjóminn kemur í en þarf að verða moðvolg áður en hún fer út í þurrefnin ásamt eggi og hjartarsalti. Hnoðað, gjarnan í hrærivél. Deiginu er svo pakkað inn í loftþéttar umbúðir (plastpoka) og geymt í kæli til næsta dags.

Næsta verk er að fletja út. Okkar kökur eru ekki næfurþunnar enda er snúnara að fletja út ofurþunnar kökur úr deigi sem inniheldur heilhveiti en hreinar hveitikökur. Við fundum einhvern tíma út að í hverja köku færu um 35 g af deigi. Ágætt ráð er því að vigta hæfilega skammta í hverja köku. Nauðsynlegt er að nota smávegis af hveiti við að fletja en fara samt sparlega með það því ef kökurnar eru löðrandi í hveiti er vonlaust að fá skurðinn fallegan. Reynt er að fá kökuna eins hringlaga og hægt er og svo er fínt að nota disk til að skera eftir til að fá jafnstórar kökur. Við notum disk sem er 21 cm í þvermál og pizzuhníf (við eigum ekki almennilegt kleinuhjól). Afgangsdeigið, sem skorið er utan af, er lagt á pappírsklæddan bakka og geymt í plasti. Afskurðinn köllum við skufsur. Skufsurnar steikjum við líka eins og kökurnar. Eins og áður sagði þá fórum við núna þá leið að fletja allar kökurnar, leggja þær í stafla með bökunarpappír á milli og geyma í plasti í ísskáp til næsta dags. Þetta urðu 45 kökur og við skiptum þeim í þrjá poka svo þær klesstust ekki of mikið saman. Ég veit ekki hversu lengi má geyma kökurnar svona án þess að þær skemmist en það er óhætt að frysta þær ef svo ber undir, allavega eru þær seldar svoleiðis í búðum.

IMG_0115Við ætluðum skera og steikja kökurnar daginn eftir að þær voru flattar svo þær biðu í ísskápnum. Um morguninn tókum við kökurnar út og létum þær ná stofuhita áður en við byrjuðum að skera.

IMG_0114Laufabrauðsskurður er alveg sér kapítuli og þar eru sérviskurnar óteljandi og mismunandi milli fjölskyldna. Á þessum bæ er áherslan  á að eiga notalega fjölskyldustund og listrænn skurður er ekki aðalatriði.  Hér má alveg gera kalla og kellingar og allskonar. Mikilvægt er að pikka kökurnar að loknum skurði, t.d. með oddinum á hnífnum sem notaður er við að fletta laufin. Ef kökurnar eru ekki pikkaðar verða þær ekki eins fallegar eftir steikingu. Við notuðum bökunarpappírinn til að leggja kökurnar á eftir skurðinn, u.þ.b. 15 í hvern stafla.

IMG_0141Laufabrauðið er steikt í feiti.  Þessi frá Kristjáni heitnum er ljómandi fín og skammturinn  hefur reynst hæfilegur fyrir okkur. Feitin er hituð rólega í góðum, frekar stórum potti. Til að athuga hvort hún er orðin hæfilega heit er ágætt að setja skufsu í pottinn og ef feitin sýður vel í kringum hana og hún brúnast aðeins (frekar en soðnar) er feitin orðin hæfileg.

IMG_0139.JPGÉg byrja yfirleitt á að steikja skufsurnar og nýti það tækifæri til að fínstilla hitann á feitinni svo hann sé hæfilegur þegar kemur að sjálfum kökunum. Svona skufsur eru fínasta snakk og þykja sérlega góðar með salsa, þótt sumum finnist það hálfgert guðlast.

IMG_0138Við erum alltaf tvö við að steikja, annað steikir og hitt pressar kökurnar. Kökurnar eru lagðar varlega í feitina með skurðhliðina niður, ein í einu. Þegar kakan er aðeins farin að taka lit er henni snúið. Ég nota stóran spaða, þennan sem sést í á myndinni. Sumir nota gaffal. Eftir að hafa verið smá stund á seinni hliðinni er kakan veidd upp með spaðanum, látin leka af henni mesta feitin og svo færð yfir á pappír þar sem hún er pressuð. Við notum dagblað og leggjum á það eldhúspappír. Ofan á þetta er kakan lögð, þar ofan á annað blað af eldhúspappír og loks hlemmur eða bretti og þrýst létt ofan á til að slétta úr kökunni. Engar kraftaæfingar, þá brotnar kakan! Skipta þarf um pappír öðru hverju.

IMG_0134Þennan fína hlemm á Signý, dóttir Jóa bróður. Hún gerði hann í smíðum í skólanum fyrir mörgum árum og ég fæ að hafa hann í geymslu þar til hún þarf á honum að halda sjálf. Í mörg ár var Signý pressarinn minn við laufabrauðssteikinguna.

IMG_0136Að lokinni steikingu eru kökurnar lagðar í nokkra stafla og látnar kólna alveg áður en þeim er pakkað. Við höfum geymt þær í málmbaukum, plastfötum eða pappaöskjum. Hafa skal það sem hendi er næst.

IMG_0140

Færðu inn athugasemd