Spínat- og eggaldinréttur eða spínatpasta

Fyrir allmörgum árum fengum við súpergóðan spínatpastarétt hjá vinum okkar þeim Önnu Siggu og Gylfa. Síðan höfum við eldað þennan rétt reglulega og uppskriftin kannski breyst aðeins í okkar meðförum en grunnurinn er sá sami. Undanfarið höfum við skipt pastanu út fyrir eggaldin og finnst það hreint ekki síðra. Hér kemur lýsing á eggaldin-útgáfunni en vegna þess að ég hef fengið eindregnar óskir um að birta uppskrift að pastaútgáfunni fléttast inn í hvernig sú útgáfa er, enda er þetta í grunninn sama uppskriftin.

IMG_0007Við byrjum á sósunni en í hana fer:

1 msk góð olía
2 laukar, saxaðir frekar smátt
2 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð
2 litlar eða ein stór dós tómatpúrra/kraftur (ca. 70 g)
2 dósir niðursoðnir tómatar
2 tsk þurrkuð basilíka eða slatti af ferskri
1-1,5 tsk sjávarsalt
1 tsk nýmalaður svartur pipar

IMG_0009Olían er hituð aðeins í potti og lauk og hvítlauk bætt út í. Látið krauma í nokkrar mínútur þangað til laukurinn er orðinn glær. Hér þarf bara að passa að laukurinn brenni ekki.

IMG_0010Næst er tómatkrafti, tómötum og kryddi bætt í og sósan látin malla, undir loki, við fremur lágan hita í a.m.k. 30 mínútur en gjarnan lengur ef tími er til þess.

Næsta verkefni er að græja eggaldin. Þau eru bökuð í ofni og nú er sniðugt að kveikja á honum og stilla á 200°C. Við þurfum allavega 700 g af eggaldinum. Þau eru skoluð og snyrtur af þeim blaðendinn. Síðan eru þau sneidd, á langveginn, í u.þ.b. sentimetra þykkar sneiðar. Sneiðarnar eru svo lagðar í pappírsklædda ofnskúffu og smurðar létt með olíu á báðum hliðum. Eggaldinin draga í sig töluverða olíu ef þau komast upp með það og því þarf að passa að fara sparlega með olíuna, þetta á ekki að verða gegnsósa. Ofnskúffan er sett í heitan ofninn og eggaldinin bökuð í 10-12 mínútur á hvorri hlið. Eftir 10 mínútur þarf sem sagt að taka skúffuna út og snúa sneiðunum.

IMG_0015Pastaútgáfan:  Sjóðið u.þ.b. 300 g af pasta, gjarnan fiðrildapasta (farfalle). Sjóðið ekki alveg eins lengi eins og segir á pakkanum því rétturinn á eftir að fara í ofn og ef pastað er fullsoðið áður en það fer í ofninn verður það óþarflega klessulegt í lokin. Skolið pastað í köldu vatni þegar suðunni lýkur.

Nú er komið að spínatinu. Magnið fer svolítið eftir smekk en ágætt er að miða við 350-500 g af frosnu spínati sem búið er að láta þiðna. Við byrjum á að hita 1-2 msk af olíu á pönnu og rífum útí tæplega hálfa múskathnetu. Hér mæli ég eindregið með að freistast ekki til að nota rifið múskat úr krukku, múskathnetan gefur mun meira og betra bragð.

IMG_0012Múskatinu er blandað vel saman við olíuna. Kreistið svo sem best af vökva úr spínatinu og bætið því á pönnuna ásamt u.þ.b. 100 g af hreinum rjómaosti. Hrært rólega og af þolinmæði þar til rjómaosturinn hefur bráðnað og allt blandast vel.

IMG_0013Loks er kryddað með sjávarsalti og nýmöluðum svörtum pipar eftir smekk. Ágætt að byrja á svona hálfri teskeið af hvoru.

Nú erum við komin með tómatsósu, spínatjafning og bakaðar eggaldinsneiðar (eða soðið pasta) og getum farið að raða þessu saman í ofnfast fat.

Eggaldinútgáfan:  Fyrst er sett smávegis af sósu í botninn, þá eitt lag af eggaldinsneiðum, allur spínatjafningurinn, meiri sósa, annað lag af eggaldinum, aftur sósa og loks rifinn mozzarellaostur eða sneiddur ferskur. Við vorum með sneiddan ferskan í þetta sinn. Ef afgangur verður af sósunni (sem er líklegt því uppskriftin er frekar rausnarleg) má geyma hann í ísskáp og nota í annað einhvern næstu daga eða frysta og nota síðar.

IMG_0017Spínatútgáfan: Ofnfasta fatið er smurt aðeins með olíu. Síðan er helmingurinn af pastanu settur í botninn, þá allur spínatjafningurinn, svo hinn helmingurinn af pastanu og loks sósan. Ekki er víst að nauðsynlegt sé að nota alla sósuna, þetta er býsna ríflegt magn. Afganginn má nýta í allt mögulegt næstu daga eða frysta og nota síðar.  Efst er svo settur rifinn mozzarellaostur eða ferskur, sneiddur.

IMG_0019Sett í 200°C heitan ofn og bakað þar til osturinn er aðeins farinn að taka lit. Það tekur svona 20-30 mínútur. Borið fram með grænu salati ef vill, annars er þetta stútfullt af grænmeti, allavega eggaldinútgáfan.

IMG_0025

Færðu inn athugasemd