Tzatziki er grískt heiti á sósu eða dýfu sem gerð er úr grískri jógúrt, agúrku, hvítlauk, ólífuolíu, sítrónusafa og kryddi. Svipaða sósu er að finna í matarhefðum margra landa og heitir þá bara eitthvað annað og kryddið örlítið frábrugðið. Við notum þessa sósu til dæmis með grískum kjötbollum eða grilluðum laxi eða grilluðu (lamba)kjöti. Hún er fersk, frekar holl og, að okkar mati, mörgum sinnum betri en tilbúnar sósur.
Í tzatzikið þarf eftirfarandi:
350-400 g gríska jógúrt eða blöndu af grískri jógúrt og sýrðum rjóma
1 agúrku
3 tsk salt
1 vænan eða 2 litla hvítlauksgeira
1 msk góða ólífuolíu
1 msk sítrónusafa
1 tsk nýmalaðan svartan pipar

Sósugerðin hefst á því að rífa agúrkuna á frekar grófu rifjárni og dreifa svo saltinu yfir og blanda því aðeins saman við agúrkuna. Þetta er svo látið bíða í um 30 mínútur. Á meðan er öðrum innihaldsefnum blandað saman í skál.
Þegar agúrku og saltblandan er búin að standa í 30 mínútur hefur saltið gert það að verkum að heilmikill vökvi hefur losnað úr agúrkunni. Þá er umframvökvinn kreistur vel úr agúrkunni. Ágætt er að skella þessu í sigti og þrýsta ofan á með skeið þannig að sem allra mest af safanum sigtist frá.
Nú er komið að því að setja agúrkuna út í sósuna og blanda vel.
Svo er bragðbætt með salti og pipar ef þörf er á. Tzatziki-sósan er tilbúin!


1 athugasemd á “Tzatziki”