Ofnbakað grænmeti – gott með flestu

Grænmeti gætum við líklega flest borðað oftar og í meira magni en við gerum. Flest grænmeti er ljómandi gott hrátt og sjálfsagt að njóta þess svoleiðis. Tilbreytingin gleður nú samt og möguleikarnir eru nær ótæmandi þegar kemur að því að elda grænmeti, ýmist í réttum með öðru hráefni eða grænmetisréttum. Ofnbakað grænmeti er fljótlegt, þægilegt og ekki síst gómsætt. Nota má alls konar grænmeti og kryddjurtir, hér er um að gera að prófa sig áfram með það sem til er hverju sinni.

IMG_0145Í þetta skipti notaði ég 2 gula lauka og 2 rauðlauka, 1 gula papriku og aðra rauða og loks slatta af litlum og sætum nýjum gulrótum. Sveppir, kúrbítur, spergilkál, strengjabaunir og ýmislegt fleira má nota í svona grænmetisbakstur. Grænmetið er hreinsað, laukar skornir í báta, paprikur í strimla og gulrætur í lengjur.

Næst er tekin fram STÓR skál (hún þarf að rúma allt grænmetið) og í hana hellt ca. 2-3 msk af góðri olíu. Athugið að það er ekkert betra að hafa mikið af olíu. Saman við olíuna er blandað kryddi eftir smekk. Hér notaði ég 2 pressaða hvítlauksgeira, 2 tsk þurrkað tímían, salt og pipar. Olíu og kryddi er blandað vel saman, grænmetinu bætt út í og velt vandlega upp úr olíu-kryddblöndunni. Grænmetið er svo sett í bökunarpappírsklædda ofnskúffu.

IMG_0147Grænmetið er bakað við ca. 200°C (190°C ef notaður er blástur) í um 20-25 mínútur eða þar til það er orðið mjúkt og byrjað að taka smá lit á köntum en ekki farið að brenna. Þegar grænmetið kemur úr ofninum er það í raun tilbúið. Stundum stráum við svolitlum hreinum festaosti yfir heitt grænmetið áður en það er borið fram.

IMG_0148Bakað grænmeti má nota með ýmsum mat t.d. fiski, fuglakjöti og rauðu kjöti. Okkur finnst það ómissandi með grískum kjötbollum (uppskrift hér).

IMG_0150

1 athugasemd á “Ofnbakað grænmeti – gott með flestu

Færðu inn athugasemd