Kjötbollur eru til í mörgum skemmtilegum útgáfum og hér á bæ eru m.a. gerðar ítalskar, grískar, sænskar og íslenskar. Grískar kjötbollur er auðvitað hægt að gera úr nautahakki eða blönduðu nauta- og kindahakki en ég skora á ykkur að prófa að nota hreint lambahakk. Að þessu sinni keypti ég frosið lambahakk frá Kjarnafæði í Bónus. Kílóið var um helmingi ódýrara en kíló af nautahakki. Innihaldsefnin í þessum bollum geta alveg verið svolítið breytileg, allt eftir því hvað er til í skápunum. Saxaðar svartar ólífur og/eða saxaðir sólþurrkaðir tómatar eru til dæmis góð viðbót.
Í þetta skipti er innihaldið eftirfarandi:
600 g lambahakk
1 laukur, saxaður smátt
2 pressuð hvítlauksrif
1 egg
100 g hreinn fetaostur, mulinn frekar fínt milli fingra
2 msk söxuð steinselja
1 tsk þurrkað óreganó
1/2 tsk cuminduft
1/2 tsk kóríanderduft
1/2 tsk nýmalaður svartur pipar
1/2 tsk sjávarsalt
Öll innihaldsefni eru sett í skál og blandað vel saman með sleif eða bara með hreinum höndum.
Úr kjötdeiginu eru mótaðar bollur sem settar eru í pappírsklædda ofnskúffu. Ég nota ísskeið til að fá álíka stórar bollur.
Úr þessari uppskrift fengust 24 bollur. Skúffan fer svo inn í um 200°C heitan ofn (eða 190°C ef notaður er blástur) í 20-25 mínútur og þá ættu bollurnar að vera tilbúnar.
Með bollunum bar ég fram ofnbakað grænmeti (uppskrift hér) og tzatziki (uppskrift hér).


1 athugasemd á “Grískar lambakjötsbollur”