Kona getur ekki látið allt þetta lambakjöt fara til spillis sem nú er til í landinu. Lambakjöt er hægt að nýta í fjölbreytta rétti og þótt kjötsúpa, læri eða hryggur standi alltaf fyrir sínu finnst mér skemmtilegra að elda lambakjöt í alls konar réttum. Í fjölmörgum löndum er rík hefð fyrir notkun lambakjöts og eitt þeirra er Marokkó. Margir klassískir marokkóskir lambakjötsréttir innihalda þurrkaða ávexti eins og sveskjur og apríkósur og það fellur ekki að smekk allra. Fyrir nokkru var ég að leita að uppskriftum á netinu og rambaði þá á uppskrift frá Úlfari Finnbjörnssyni á síðu Kjarnafæðis. Uppskriftin er undir áhrifum frá Marokkó en án þurrkaðra ávaxta. Uppskriftina má finna hér. Ég prófaði hana og fannst hún ansi hreint góð. Samt hef ég ekki getað stillt mig um að breyta henni eftir mínum smekk, hef til dæmis bætt við kryddmagnið og grænmetið. Nú er hún komin í uppáhaldsflokkinn á heimilinu. Mín útgáfa kemur hér:

700-900 g lambagúllas. Ég nota lambabóg sem minn heittelskaði úrbeinar fyrir mig (já ég veit ég þarf að læra að gera þetta sjálf) og kjötmagnið fer þá eftir stærð bógsins, ódýrt og gott – annars er bara hægt að kaupa gúllasið tilbúið.
Krydd á kjötið:
- 1,5 tsk paprikuduft
- 1 tsk kanilduft
- 2 tsk cuminduft (broddkúmen
- 2 msk þurrkað oregano
- 1,5 tsk chiliduft
- 1 msk kóríanderfræ, steytt
- 1 msk cuminfræ, steytt
- 2 tsk nýmalaður pipar
- 1 msk salt
Öllu kryddinu og salti blandað saman og gluðað á lambagúllasið. Þetta má gjarnan gera með góðum fyrirvara. Ég hef prófað að láta kjötið liggja í kryddinu í sólarhring og það var bara til bóta. Ef tíminn er naumur þá er líka í lagi að krydda bara í upphafi eldamennskunnar.
Næsta skref er að undirbúa grænmetið og annað sem fer í réttinn. Hér fer hver eftir eigin smekk og birgðastöðunni í ísskápnum og bætir við eða dregur úr eftir hentugleikum.
- 3 hvítlauksgeirar, saxaðir eða pressaðir
- 2 laukar, skornir frekar gróft
- 4-6 gulrætur (eftir stærð), skornar í bita
- 3-5 sellerístilkar, skornir í bita
- 2-3 paprikur (gjarnan í mismunandi litum), skornar í bita
- 1 lítil dós tómatkraftur/-púrra (ca. 70 g)
- 2 dósir niðursoðnir tómatar
- 1-2 dósir svartar baunir og/eða kjúklingabaunir, eftir smekk – vökvinn sigtaður frá
- 250 g kirsuberjatómatar, skornir í tvennt
- 150 g ferskt spínat (muna að skola vel)
- 3 msk fersk kóríanderlauf til að strá yfir réttinn fyrir framreiðslu – eða bera fram í skál með ef einhver matargesta borðar ekki kóríander.
Gott er að nota stóra og djúpa pönnu eða pott. Kjötið er steikt/brúnað úr svolítilli olíu við mikinn hita í 4-5 mínútur. Því næst er lauk, hvítlauk, gulrótum, selleríi og papriku bætt á pönnuna og steikt með í nokkrar mínútur. Síðan er niðursoðnum tómötum og tómatkrafti bætt út í og hrært vel. Rétturinn er svo látinn malla við vægan hita í u.þ.b. klukkutíma. Ég mæli með að prófa hvort lambakjötsbitarnir eru ekki örugglega orðnir vel soðnir. Ef kjötið er orðið vel soðið er komið að því að bæta baunum, spínati og kirsuberjatómötum í pottinn/pönnuna og sjóða í svona 3 mínútur til viðbótar. Stráið loks kóríander yfir – eða berið fram með ef svo ber undir. Með þessu hef ég borið fram kryddað kúskús. Þetta er hollur og bragðmikill réttur, stútfullur af grænmeti, sem ætti að nægja fyrir 4-6, allt eftir svengd/græðgi.

