Afbragðsmarmelaði

Marmelaði úr gulrótum, apríkósum og appelsínum er í uppáhaldi hjá mér og mjög mörgum sem hafa smakkað það hjá mér. Nafnið er þannig til komið að einhver sagði þetta vera alveg afbragðs marmelaði. Líklega eru ein 10 ár síðan í byrjaði að gera tilraunir með svona marmelaði og það hefur tekið ýmsum breytingum gegnum tíðina. Þessi útgáfa held ég að sé komin til að vera. Uppskriftin er nokkuð stór en hana má að sjálfsögðu minnka eins og hver vill. Ég hef reynt að nota innfluttar gulrætur þegar ég hef ekki fengið íslenskar en einhverra hluta vegna gera þær innfluttu ekki sama gagn, þær virðast ekki eins safaríkar.  Ef notaðar eru lífrænar apríkósur (aukaefnalausar) verður marmelaðið aðeins brúnleitt á litinn. Venjulegar apríkósur skila hinsvegar skærappelsínugulu marmelaði. Hér er mynd af báðum útgáfum.

IMG_0124

850 g rifnar íslenskar gulrætur (best að nota nýjar íslenskar, þarf uppundir kíló)
700 g apríkósur (500 g lagðar í bleyti í 7 dl af sjóðandi vatni í ca. klukkutíma)
700 g appelsínur, gjarnan lífrænar (börkurinn, líka sá hvíti, skorinn frá)
750 g sykur
500 g sultusykur (með hleypi).

Athugið að allar tölur eru hreinsuð vigt, þ.e. það sem fór í pottinn – alls 2250 g ávextir/gulrætur.

Aðferðin er eftirfarandi:

  • Gulrætur skolaðar og rifnar fínt gjarnan í vél ef hún er til, annars er þetta bara smá handavinna. Nýjar gulrætur þarf ekki að flysja.
  • Appelsínur eru flysjaðar, þ.e. börkurinn og hvíta himnan innan við hann og berkinum hent, eða notaður í eitthvað annað.
  • Apríkósurnar veiddar upp úr vatninu. Ekki henda því strax, það má fara út í marmelaðið á suðutímanum ef það virðist ætla að verða of þykkt.
  • Appelsínur og apríkósur eru skornar í frekar smáa bita. Auðvitað má láta matvinnsluvél um að saxa en mér þykir betra að hafa þetta í bitum, frekar en maukað.
  • Gulrætur, appelsínur og apríkósur settar í pott og látnar malla við vægan hita í 3-5 mínútur. Þá er sykri bætt í og soðið áfram við vægan hita í ca. 20 mínútur. Muna að hræra í þessu öðru hverju.
  • Sett heitt á hreinar krukkur og lokað strax.
  • Úr þessari uppskrift kom marmelaði sem dugði í 8 krukkur (þessar ferköntuðu undan fetaosti)

Færðu inn athugasemd