Berjabaka

Hér kemur uppskrift að berjaböku sem er bæði einföld og fljótleg. Í hana hef ég prófað að nota ýmiss konar ber en hindberjaútgáfan hefur reynst vinsælust. Ekki sakar að bökuna er hægt að frysta (gjarnan óbakaða) og eiga hana, tilbúna í ofninn, þegar á þarf að halda.

Berjabaka tilbúin úr ofninum

2,5 dl spelt eða hveiti
1,5 dl hrásykur/sykur
4,5 dl grófvölsuð hafragrjón
¾  tsk matarsódi
200 g bráðið smjör
500 g ber (fersk eða frosin)
1,5 dl gróft kókosmjöl eða kókosflögur
100 g möndluflögur

Spelti, hrásykri, haframjöli og matarsóda er blandað saman í skál. Smjörinu er svo hellt út í og hrært vel saman með sleif. Deigið á að vera frekar sundurlaust. Um það bil 2/3 af deiginu er sett í eldfast form og dreift úr því, óþarft að þjappa. Berin sett yfir. Ekki er nauðsynlegt að láta frosin ber þiðna áður en þau eru sett á bökuna.

Berjabaka í bígerð

Kókosmjöli og möndluflögum er hrært saman við afganginn af deiginu og dreift yfir berin. Bakað í miðjum ofni við 180°C í u.þ.b. 30 mínútur. Gott er að bera bökuna fram volga.

Með þessu ber ég yfirleitt fram rjómaskyrsblöndu sem er útbúin svona: 2 ½ – 3 ½ dl rjómi er þeyttur létt og síðan er innihaldi úr stórri dós af vanilluskyri (frá KEA) hrært saman við.

Berjabaka á diski

Færðu inn athugasemd