Kjötsósan okkar – grænmeti í dulargervi

Sennilega eiga margar fjölskyldur sína eigin útgáfu af kjötsósu sem borin er fram með spaghettíi eða öðru pasta. Fyrir u.þ.b. 20 árum þegar við vorum að leita allra leiða til að koma grænmeti í börnin okkar byrjuðum við að gera kjötsósu með miklu grænmeti þar sem kjötið er í raun í aukahlutverki. Síðan hefur þessi sósa verið þróuð áfram og elduð ótal sinnum við ýmis tilefni. Við notum hana með pasta, sem sósu í lasagna eða sem fyllingu í portobellósveppi eða paprikur. Enn höfum við ekki borið hana á borð fyrir neinn sem hefur fúlsað við henni. Uppskriftin er býsna drjúg og ef eitthvað er afgangs má skella því í frost. Stundum gerum við tvöfaldan skammt og frystum í hæfilegum skömmtum til að nota síðar þegar lítill tími er til eldamennsku.

IMG_0114

2 msk olía
2 laukar saxaðir
2-3 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð
500 g nautahakk
3-5 meðalstórar gulrætur, rifnar
3-5 stilkar blaðsellerí, saxaðir smátt eða rifnir
2 dósir niðursoðnir tómatar, saxaðir
2 litlar dósir (eða 1 stærri) tómatkraftur/-púrra
1 msk kjötkraftur eða 1 teningur
2 tsk nýmalaður svartur pipar
2 tsk þurrkað marjoram
2 tsk þurrkað oregano
2 tsk þurrkuð basilíka

IMG_0112

Laukar og hvítlaukur eru látnir mýkjast í olíunni áður en kjöthakki er bætt út í og látið brúnast. Gulrótum og selleríi er bætt út í og látið krauma aðeins með. Síðan er tómötum og tómatkrafti er hrært saman við ásamt kryddinu. Sósan er soðin við vægan hita í a.m.k. 30 mínútur en gjarnan allt að klukkutíma. Trixið er að hafa grænmetið rifið eða saxað smátt, sérstaklega ef ætlunin er að koma henni ofan í grænmetisfælna.

IMG_0113

Stundum berum við sósuna fram með venjulegu pasta, gjarnan úr heilhveiti, en hún bragðast líka mjög vel með kúrbítspasta. Parmesanostur og svartur pipar ásamt ferskri basilíku, ef hún er til, er svo punkturinn yfir i-ið.

 

Færðu inn athugasemd