Eftir að ég hafði tínt nægju mína af rifsberjum hjá Lillu frænku á sunnudaginn var bauð hún mér inn í kaffi, spjall og sultusmakk. Lilla gerir meðal annars hlaup úr sólberjum og rifsberjum, þ.e. blandað hlaup, sem var frábærlega gott. Ég hafði fyrr um daginn tínt síðustu berin af þessum eina sólberjarunna í garðinum heima. Reyndar er annar lítill runni sem enn er ekki farinn að gefa af sér neitt að ráði og er því ekki talinn með. Gamli runninn er búinn að gefa af sér samtals 5 kíló af berjum þetta árið. Berin sem ég tíndi af honum á sunnudaginn voru ótrúlega stór, ég tók mynd af nokkrum í lófa mínum svona til minningar áður en þau enduðu í sultupottinum.

Að myndatöku lokinni hófst ég handa við að gera blandað hlaup. Ferlið er alveg eins og þegar rifsberjahlaup er lagað (sjá nánar í færslunni um rifsberjahlaup) nema hvað nú eru tvær gerðir af berjum og því þarf að gera safa úr hvorri gerð af berjum fyrir sig áður en sykri er bætt í. Kannski er hægt að gera þetta í einu lagi en ég ákvað að fylgja leiðbeiningum Lillu frænku.
Ber á stilkum eru skoluð vel og vandlega. Gott er að hafa svolítið af minna þroskuðum berjum með, þá hleypur þetta betur. Bæði rifsberin og sólberin sem ég notaði voru samt alveg þroskuð og ég hafði smá áhyggjur af því að þetta myndi ekki hlaupa almennilega en þær áhyggjur voru óþarfar. Það er greinilega nóg af nátturulegum hleypi í stilkunum.
Berin eru sett í pott og smávegis af köldu vatni sett með. Ágætt er að miða við að þegar hönd er þrýst ofan á berin þá glitti í vatn. Soðið undir loki í 7-10 mínútur. Ef berin eru ekki komin alveg í mauk er fínt að þjarma aðeins að þeim með kartöflustappara. Öllu gumsinu er svo hellt í grisju eða fínt sigti og safinn látinn síga af. Þetta getur tekið nokkra klukkutíma og ef þannig stendur á er allt í lagi að láta þetta standa yfir nótt. Mjöööög mikilvægt er að kreista ekki grisjuna til að flýta fyrir ferlinu, þá verður hlaupið ekki eins tært og fallegt. Sama ferli er svo endurtekið við hina berjategundina.
Næst er að mæla safann. Ég mældi sólberjasafann fyrst því ég sá að ég átti minna af honum. Setti hann í pott og mældi jafnmikið af rifsberjasafa og bætti í pottinn. Blandaði safinn er svo soðinn í opnum potti í 7-10 mínútur, þá rýkur úr honum mest af vatninu sem bætt var saman við berin í upphafi. Nú er komið að því að bæta í sykri, u.þ.b. 700 g pr lítra af safa, og soðið í opnum potti í 7-10 mínútur.
Ofan á tærum vökvanum hefur líklega birst svolítil skán sem best er að veiða af með gataspaða.
Vökvanum er loks ausið á hreinar og heitar krukkur og lokað strax. Hlaupið þarf að fá smá tíma til að stífna. Hlaupið verður falleg vínrautt á litinn í krukkunni.

Bragðið sveik ekki og ég held að hlaupið geti verið ansi gott með villibráð en það bragðaðist nú líka ljómandi vel bara svona á kexköku.

