Lambakæfa – unnið á kjötfallinu

Lambakjöt hefur víst safnast upp í landinu og töluverðar fyrningar eru frá fyrra ári nú þegar sláturtíð nálgast. Kona þarf auðvitað að leggja sitt af mörkum til að minnka fjallið og keypti því slatta af 2. flokks súpukjöti á tilboði til að gera úr kæfu. Uppskriftin er fengin frá mömmu fyrir mörgum árum síðan og ég hef lítið breytt henni.

IMG_0078

3-4 kg lambakjöt, nota má alls konar bita
4 stórir laukar
1 lárviðarlauf
2-3 tsk salt
1 tsk nýmalaður svartur pipar
½ tsk allrahanda

  • Kjötbitum raðað þétt ofan í pott. Ef kjötinu er raðað þétt þarf minna vatn og þá tekur styttri tíma að sjóða niður soðið.
  • Sjóðandi heitu vatni hellt yfir þannig að fljóti vel yfir allt kjötið. Soðið við hægan hita í ca 2,5 klst.
  • Kjötið veitt uppúr soðinu og kælt talsvert. Þegar mesti hitinn hefur rokið úr kjötinu eru öll bein fjarlægð og jafnvel eitthvað af fitu ef notað er mjög feitt kjöt.
  • Soðið látið kólna aðeins og fitan veidd/fleytt ofanaf.
  • Soðið látið sjóða niður þar til u.þ.b. 750 ml eru eftir.
  • Laukur flysjaður og skorinn í stóra báta.
  • Laukur og lárviðarlauf sett út í soðið sem eftir er og soðið undir loki í 10 mínútur.
  • Lárviðarlauf fjarlægt og því hent og laukurinn veiddur uppúr soðinu.
  • Kjötið hakkað og einnig soðni laukurinn.
  • Hakkaða kjötið og laukurinn sett út í soðið. Hitað vel í gegn.
  • Salti, pipar og allrahanda hrært vandlega saman við.
  • Smakkað til, og bætt við salti og kryddi ef þarf. Ath. að bragðið dofnar þegar kæfan kólnar
  • Kæfan sett í lítil box og fryst.

Færðu inn athugasemd