Fljótgerður kjúklingaréttur með grænmeti er góður kostur í dagsins önn og þessi er reyndar svo gómsætur að hann er líka tilvalinn þegar von er á gestum. Uppskriftina fann ég í Feminu (08/2016) en hef breytt henni lítillega. Sleppa má kjúklingakjötinu og tvöfalda baunamagnið ef svo ber undir. Gott er að nota stóra pönnu (t.d. wok-pönnu) eða pott svo allt hráefnið komist örugglega með góðu móti fyrir á pönnunni.

Tími: 20 mínútur
Skammtar: 4
4-500 g kjúklingalundir eða -bringur
2-300 g heilhveitinúðlur eða sobanúðlur (bókhveitinúðlur)
200 g edamamebaunir án belgs (fást frosnar t.d. í Nettó)
1 vænn spergilkálshaus
3 hvítlauksrif
4-5 cm bútur af engifer, rifinn
1/2 – 1 og 1/2 msk rautt karrímauk
1 msk kókosolía eða önnur bragðlítil olía
1 dós kókosmjólk (400 g)
2 msk hnetusmjör
2-4 msk fiskisósa
safi úr einu lime
3 vorlaukar
1 lúka saltaðar jarðhnetur
ferskur kóríander
- Kjúklingakjötið skorið í minni bita.
- Núðlur soðnar samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum og síðan skolaðar í köldu vatni svo þær klessist síður saman.
- Sjóðandi vatni hellt yfir edamamebaunirnar svo þær þiðni.
- Spergilkálið hlutað niður í litla brúska. Stöngullinn skorinn í mjóa stafi. Já við nýtum hráefnið almennilega 🙂
- Hvítlaukur pressaður og engifer rifinn og hvort tveggja látið krauma í olíunni með karrímaukinu. Um að gera að minnka eða auka magn karrímauksins eftir smekk þeirra sem ætla að borða réttinn.
- Kjúklingabitunum bætt í og brúnaðir vel á öllum hliðum.
- Spergilkáli bætt í og steikt með í nokkrar mínútur.
- Kókosmjólk og hnetusmjöri bætt við og hrært vel saman við.
- Bragðbætt með fiskisósu og lime-safa.
- Baunir og núðlur settar út í.
- Ofan á er svo stráð vorlauk (skornum í þunnar sneiðar), jarðhnetum og söxuðum kóríander.
- Borið fram strax. Reyndar er þessi réttur ekkert síðri upphitaður og ef það er afgangur er alveg óhætt að mæla með honum í nestispakkann.
