Þegar ég missti mig í ferskjukaupum í sumar (sjá Ferskju- og rabarbarasulta) gerði ég líka hreina ferskjusultu. Hún er bara býsna góð.

2 kg ferskjur
500 g sykur
safi úr einni sítrónu
Ferskjur flysjaðar (hér eru leiðbeiningar sem ég fann á pinterest), steinar fjarlægðir og restin skorin í litla bita. Nú hafa kílóin tvö rýrnað töluvert.
Ferskjur og sítrónusafi sett í pott og hitað að suðu við fremur háan hita. Svo er hitinn lækkaður og sykri bætt í. Blandan látin sjóða við meðalhita og hrært í af og til þar til sultan hefur þykknað aðeins, það gæti tekið 15-25 mínútur.
Sett á hreinar heitar krukkur og lokað strax.

