Sólberjasulta með perum og kanil

IMG_0089

Sólberjarunninn í garðinum er einstaklega gjöfull í ár. Við erum búin að tína af honum rúm fjögur kíló af berjum núna en í fyrra fengum við bara rúmt kíló. Ástæðan er líklega sú að í fyrra var hann nýfluttur á nýjan stað og upptekinn við að koma sér vel fyrir. Nýi staðurinn er greinilega heppilegur fyrir hann.  Hluta af berjunum notaði ég í líkjör og slatti fór í frost. Afganginn nýtti ég sultu. Ég hef nokkrum sinnum gert venjulega sólberjasultu og ekki fundist hún neitt sérstök. Svo rakst ég á uppskrift (á dansukker.dk) sem innihélt líka perur og kanil og útkoman var miklu betri. Sultan er góð með ostum, kjöti, út á jógúrt eða skyr nú eða bara á ristaða brauðið.

IMG_0086
Sólberjasulta á frumstigi

1,5 lítri sólber (u.þ.b. 1 kg)
3 stórar perur (u.þ.b. 750 g af perubitum)
1/2 dl vatn
9 dl sykur (um 830 g)
1 kanilstöng

  • Ber tekin af stilkum og skoluð.
  • Perur afhýddar, kjarnhreinsaðar og skornar í frekar litla bita.
  • Allt sett í pott og látið krauma við vægan hita í um 20 mínútur. Hrært í af og til. Kanilstöngin fjarlægð í lokin.
  • Stundum hefur mér fundist sultan verða of þunn (líklega vegna þess að berin eru mjög þroskuð, þ.e. lítið af hálfþroskuðum berjum með) þá er hægt að setja smá pektín útí í lokin. Bara fylgja leiðbeiningum á pakkanum varðandi aðferðina en ekki setja mjög mikið, tvær teskeiðar ættu að duga.
  • Sett á hreinar heitar krukkur og lokað strax.

Þessi uppskrift verður að u.þ.b.  2,4 kg af sultu.

Færðu inn athugasemd